Hátíðartónleikar Nótunnar 2024

Að Nótunni standa Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) og Samtök tónlistarskólastjóra (STS) og NÓTAN hefur verið árlegur viðburður hjá tónlistarskólunum frá árinu 2010. Hátíðin er í senn faglega hvetjandi og skemmtilegt innlegg í skólastarfið fyrir alla aðstandendur skólanna jafnt innan veggja þeirra sem utan.

Uppskeru tónlistarskóla á Norðurlandi verður fagnað í Menningarhúsinu Miðgarði, Varmahlíð, með hátíðartónleikum sunnudaginn 14. apríl kl. 14:00. Tónlistarskóli A.-Hún. á þrjá fulltrúa, þau Kai Elías Wechner píanónemanda, Þórönnu Mörthu Pálmadóttur þverflautunemanda og Adam Nökkva Ingvarsson saxófónnemanda.

Skipulag og grunnhugsun uppskeruhátíðar tónlistarskóla byggir á því að þátttakendur séu frá öllu landinu, á ólíkum aldri og öllum stigum tónlistarnámsins. Fyrirkomulagi er ætlað að endurspegla ólík viðfangsefni tónlistarnemenda og það fjölbreytta starf sem fram fer innan tónlistarskóla. 

Ókeypis er á alla tónleika Nótunnar og allir boðnir hjartanlega velkomnir á þennan skemmtilega viðburð!