Utanlandsferð 2003

Utanlandsferð tónlistarskóla A.-Hún og V.-Hún til Svíþjóðar og Danmerkur

Lúðrasveit Húnavatnssýsla hélt af stað aðfaranótt 5. júní í ferðalag til Svíþjóðar og Danmerkur. Síðast fór Lúðrasveitin af landi brott fyrir rúmum 10 árum en þá fór hún til Gautaborgar. Mikil spenna og eftirvænting var í mannsskapnum enda margir að halda í sína fyrstu utanlandsferð. Lítið var sofið í rútunni á leiðinni suður en rútuferðin gekk þó vel fyrir utan smá töf í Borgarnesi því þar voru menn að laga brúna. Töfin þar varð 47 mín. og 34 sek. samkvæmt nákvæmum tímamælingum Ástu Berglindar og Margrétar Örnu, en okkur var sagt að við þyrftum bara að bíða í hálftíma. Á endanum bjargaði Hallur biðinni með því að tilkynna viðgerðamönnum að hópurinn værum að missa af flugi, sem var engin lygi heldur smávegis hagræðing á sannleikanum.

Þegar hópurinn kom til Danmerkur komu allir sér makindalega fyrir á Solsikken skóladagheimilinu á Kagså kollegie. Á þessu kollegie búa mjög margir Íslendingar, en u.þ.b. ¼ af þeim sem þar búa eru Íslendingar. Eftir að hafa kastað mæðunni á skóladagheimilinu hélt hópurinn af stað í Tívolí. Það gekk nokkuð brösulega að komast þangað því 5. júní er þjóðhátíðardagur Dana og þ.a.l. ganga strætóarnir ekki jafn oft og aðra daga og flest allt lokað. Einnig gerði einn af lúðrasveitarmeðlinum góða tilraun til að ganga frá hjólreiðamanni, því fáir Íslendingar eru vanir því að þurfa að passa sig á hjólastígum. Málavextir urðu þeir að einn hjólreiðamaður steyptist á hausinn. Eftir mikinn hristing og snúning í tívolíinu hélt hópurinn heim á Solsikken þar sem varð að raða öllum dýnum skynsamlega til að allir kæmust fyrir. Sumir sváfu undir borðum, aðrir í eldhúsinu, einhverjir á ganginum o.s.frv. Hópurinn lét þetta samt ekki á sig fá og sváfu allir værum blundi, enda enginn búinn að sofa á dýnu eða í rúmi í 2 sólarhringa.

Næsta dag hitti hópurinn rútubílstjórann sem síðan fylgdi hópnum megnið af ferðinni. Bílstjórinn var hinn ágætasti en þó verður að segjast að hann hafði mjög litríkt lundarfar að mati hópsins. Hann hélt nokkrar skammarræður á dönsku (sem fáir skildu) og oftar en ekki vissi enginn af hverju hann var reiður. Þess á milli var hann ljúfur sem lamb. Bílstjórinn byrjaði daginn á því að keyra okkur í smá skoðunarferð um Kaupmannahöfn og voru viðkomustaðir, svo dæmi sé tekið, Hafmeyjan, konungshallirnar þar sem við sáum lífvarðaskipti og Strikið. Á Strikinu var Maggihundskammaður af Dana fyrir að reyna að ryðjast í röð fyrir framan ísvagn. Maggi var hins vegar í saklausum erindagjörðum að taka mynd og botnaði lítið í þessum látum. Ekki má gleyma að rútan rúntaði framhjá Christianíu, en á miklum hraða þar sem rútubílstjóranum sem og fleirum var ekkert allt of vel við þennan stað. Eftir skoðunarferðina hélt hópurinn á Solsikken og hélt opna útiæfingu svo að íbúar og gestir og gangandi gætu staldrað við og hlustað. Kvöldinu var eytt á Dyrehavsbakken sem er n.k. skemmtigarður því hópurinn var ekki búinn að fá nóg af tívolítækjum. Þar gerði Skarphéðinn heiðarlega tilraun til að hræða líftóruna úr nokkrum af elstu meðlimum lúðrasveitarinnar. Hann benti þeim á tæki sem átti að vera voðalegaskemmtilegt og saklaust að hans mati, en Kristín á Kornsá, sem var rétt dauð úr hræðslu af svipnum að dæma, og Bryndís í Holti gleyma þessum rúnti sennilega aldrei. Þegar tækið loksins stoppaði leið yfir Bryndísi en hún rankaði sem betur fer strax við sér og sendi Skarphéðni illt augnráð með smá handamerkingum. 

Snemma að morgni laugadags hélt hópurinn af stað til Vaxjö, vinabæjar Skagastrandar, í  Svíþjóð. Margir voru með smá fiðring í maganum því að framundan voru 2 nætur hjá ókunnugum fjölskyldum í Svíþjóð. Hópnum var skipt niður á nokkur heimili þar sem 1-3 fóru á hvert heimili. Það er óhætt að fullyrða að allir hafi fengið frábærar viðtökur og eignuðust allir ,,nýja” mömmu og pabba á meðan þessu stóð. Eftir að allir voru búnir að fara með dótið sitt á heimilin fór hópurinn í skoðunarferð í Vaxjö og var auðséð að Svíarnir voru mjög stoltir af sínum heimkynnum, enda mjög fallegur bær og margt að sjá. Þess má geta að í þessum bæ stunda 14.000 nemendur háskólanám alls staðar að úr heiminum. Um kvöldið var haldið í Experiment huset sem er n.k. tilraunasafn. Þar skoðaði hópurinn alls kyns tól og tæki. Eigandinn sýndi nokkrar tilraunir m.a. á hárinu á Ástu Berglindi sem stóð út í loftið í stað þess að sitja á öxlum hennar. Heimsóknin endaði síðan með skutlukeppni, en öllum var skipt í hópa og hver og einn hópur bjó til eina skutlu. Kepnnin fólst svo í að skutlan svifi sem lengst.

Á sunnudeginum var haldið til Ölandseyju, sem er ein af frægustu sumarleyfiseyjunum í Svíþjóð. Þar var konunglegi garðurinn skoðaður en í honumheldur konungur Svíþjóðar gjarnan til á sumrin. Lena og Bobba fararstjóri voru meira að segja svo heppnar að sjá kauða. Þegar hópurinn hafði dvalist nokkrar klst. á eyjunni spurði einn ónefndur aðili úr Lúðrasveitinni hvenær það ætti eiginlega að fara á þessa eyju. Það fór gjörsamlega fram hjá henni þegar rútan fór yfir um 8 km langa brú. Eftir Ölandseyju ferðina æfði hópurinn með lúðrasveitinni í Vaxjö og síðan grillaði allur hópurinn saman á ströndinni og háðir voru ,,landsleikir” í fótbolta og hafnabolta. 

Loksins rann stóri dagurinn upp því þennan dag voru tónleikarnir haldnir. Þó gaf hópurinn sér tíma til að skreppa í skógarferð og verslunarleiðangur fyrst en tónleikarnir hófust kl.17. Karlakór Bólstaðahlíðahrepps var einnig með dagskrá á tónleikunum og síðan flutti allur hópurinn syrpu af lögum eftir Hallbjörn Hjartarson. Það er óhætt að segja að tónleikarnir tókust frábærlega í alla staði og greinilegt að allir voru búnir að vinna heimavinnuna sína.  Eftir tónleikana hélt lúðrasveitin til Danmerkur og gekk mikið á í rútunni. ,,Vinalegur” geitungur tók sig til og stakk Ástu Berglindi og Jófríður var svo óheppin að fá gat á hausinn, en hópurinn komst til Danmerkur fyrir rest.

Síðasta degi ferðarinnar eyddi lúðrasveitin í dýragarðinum í Kaupmannahöfn en flugið heim var rétt fyrir kvöldmat. Ferðin verður án efa lengi í minningu þeirra sem fóru því hún tókst mjög vel í alla staði. Lengi lifi lúðrasveitin!!

Hugrún Sif Hallgrímsdóttir