Vestmannaeyjar 2010

Landsmót Lúðrasveita

Það voru kátir krakkar sem mættu eldsnemma á föstudagsmorgni 7. maí  í rútuna hjá Tónlistarskóla A.-Hún  en  leiðin lá á Landsmót Lúðrasveit í Vestmannaeyjum sem átti upphaflega að vera í október 2009 en var frestað vegna veðurs fram í maí 2010.

Það var margt um manninn í Þorlákshöfn enda um 800 börn og unglingar sem voru á mótinu, ásamt fararstjórum og kennurum og því margir að fara á sama tíma og við en sumir fóru á föstudagskvöldi til eyja.

Við lentum í  Vestmannaeyjum um kl. 16 eftir góða sjóferð með Herjólfi, enginn varð sjóveikur þar sem flestir fengu sjóveikitöflur og svo var líka gott í sjóinn og frábært veður.

Við komum okkur fyrir í Hamarsskóla og síðan gengu hópar á æfingastaði sem voru víðs vegar um bæinn. Krökkunum er skipt niður í hópa eftir getu: gulan, rauðan, grænan, bláan og slagsverk. Gulir, þ.e. yngstu krakkarnir sem voru 13 talsins fóru með sínum fararstjórum þeim  Hauki og Kristínu Ingibjörgu í framhaldsskólann.  Þaðan var styðst í Höllina en þangað þurftu allir að ganga í matinn; morgunmat, hádegismat og kvöldmat. Þangað var langur gangur og allt í uppímóti frá Hamarsskóla. Rauðir voru niður í Týsheimili og þar var Skarphéðinn að stjórna og hafði hann Garðar með sér í þá sveit. Grænir voru 6 og Berglind og undirrituð fylgdum þeirri sveit þar til þau rötuðu um bæinn þá  stálust við að versla.  Bláir voru í Betel en í þeirri sveit voru 3 stúlkur en Ásdís passaði uppá þær og síðan var það slagverks strákarnir 3 sem var í Akogos og sá Sigríður um þá. 

Á föstudagskvöldinu var mótsetning og skemmtun eftir kvöldmatinn og það voru þreyttir krakkar sem fóru að sofa það kvöld.

Laugardagurinn var tekinn snemma og gengið alla leið uppí Höll í morgunmat. Síðan voru voru æfingar og aftur æfingar, einhvers staðar inná milli var farið í sund í nýju frábæru sundlaugina og  bátsferð og síðan en ekki síst þá var diskótek um kvöldið í Höllinni. Langur en skemmtilegur dagur og það voru þreyttir krakkar sem fóru frekar snemma að sofa, svona miðað við laugardagskvöld, algjörlega búnir á því. 

Allir vaktir kl 7 á sunnudagsmorgni, taka til, koma dótinu út á bíl, morgunmatur uppí Höll, æfing, hádegismatur uppí Höll og síðan frábærir tónleikar í Íþróttahúsinu kl. 13.  Þar spilaði hver sveit fyrir sig nokkur lög, þ.e. gul, rauð, græn, blá og slagverk. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því hve stoltur maður verður að sjá og heyra hvað það er hægt að koma í verk, æfa, pússa og gera flott á þessum stutta tíma. Alveg sama hvaða sveit það var, svo flott og vel gert hjá þessum krökkunum og stjórnendum þeirra. Frábært og flott.

Eftir tónleikana var auðvitað pizzuveisla og svo var stefnan tekin á rútu fyrir utan íþróttahúsið  í Herjólf. Það vour margir litlir þreyttir einstaklingar sem sofnuðu á leiðinni í land. Ferin gekk vel og rútan beið okkar í Þorlákshöfn. Á Blönduós vorum við komin um kl. 24.00. 

Hér er mynd af hópnum, tekin þegar komið var til Þorlákshafnar á leiðinni heim. 

Í ferðinni voru 26 nemendur úr Tónlistarskóla A.-Hún,  6 fararstjórar og auðvitað skólastjóri tónlistarskólans Skarphéðinn Einarsson.

Algjörlega frábær ferð í alla staði, mikið æft, mikið gengið, mikið spjallað, mikið skoðað og mikið þreytt og glatt fólk sem kom heim á sunnudagskvöldi.

 

Selma Svavarsdóttir