Tónlist án landamæra

Nú er að hefjast mikil hátíðarvika í tónlistarskólanum okkar. Nemendur fara margir í sín betri föt og láta ljós sitt skína á jólatónleikum, Margir stíga á svið með þandar taugar enda talsvert afrek að hafa það hugrekki að standa upp fyrir fullri kirkju og spila fyrir alls konar fólk. Með árunum læra flestir nemendur okkar að við erum öll mannleg, við höfum nóg rými fyrir mistök og við gerum þetta öll á okkar eigin forsendum. Sumir nemenda eiga að baki fjöldann allan af klukkutímum í æfingum og sýna miklar framfarir, aðrir hafa gleymt sér í öllu hinu amstrinu og þá er gott að setja sér ný markmið því æfingin skapar jú meistarann!

Tónlist á sér engin landamæri og við erum ákaflega stolt af því og trúum að við séum á vissan hátt eitt af sameiningartáknum sýslunnar. Hjá okkur fer fram starf þar sem allir vinna saman óháð búsetu og aldri og það er ákaflega dýrmætt að geta boðið uppá vettvang þar sem foreldrar vinna með börnunum sínum, fólk úr ólíkum áttum kemur saman og flytur tónlist og ólíkar kynslóðir vinna að sameiginlegu markmiði. Það er dýrmætt. 

Í desember ómar tónlistin víða um sýsluna og oftar en ekki eru það starfsfólk skólans eða krakkar og/eða fullorðnir sem hafa hlotið tónlistaruppeldi hjá okkur síðustu áratugina sem flytja tónlistina. Þá njóta kennararnir sérstaklega að fylgjast með öllu frábæra fólkinu sem lítur ljós sitt skína hér og þar og margir hafa haldið áfram að vaxa og vaxa síðan þeir yfirgáfu okkur. 

Að þessu sögðu bjóðum við alla hjartanlega velkomna á tónleika. Söngnemendur í Húnabyggð ætla að ríða á vaðið á þriðjudaginn og syngja fyrir okkur í Blönduóskirkju kl.17.00. Á miðvikudag ætla hljóðfæranemendur Húnabyggðar að stíga á stokk á sama tíma og sama stað. Þá koma lúðrasveit skólans og jazzband einnig fram. Á fimmtudaginn ætlum við svo að loka hringnum þegar nemendur Skagastrandar og Skagabyggðar koma fram. Lúðrasveitin og jazzbandið koma einnig fram á þessum tónleikum. Tónleikarnir hefjast kl.17.00 í Hólaneskirkju.

Gleðilega aðventu.