Septemberfréttir

Þá er fyrsta heila mánuðinum lokið í kennslu en við ætlum að reyna að standa okkur betur í að deila með ykkur það sem fram fer í skólanum hjá okkur. Önnin fer vel af stað en við fengum fleiri umsóknir en nokkurn tímann áður og náðum að taka alls 101 nemendur inn. Enn eru örfáir á bið og vonandi komast þeir að fljótlega.
Kennarar skruppu til Ólafsfjarðar á svæðisþing tónlistarkennara og var meðal annars lögð áhersla á nýja námskrá sem kemur vonandi út von bráðar. Þá var fjallað um niðurstöður úr úttekt sem gerð var á starfsemi tónlistarskóla á Íslandi og einnig nýtt námsefni kynnt. Þessir dagar eru ákaflega fræðandi og mikilvægt fyrir starfsmannahópinn að fá tækifæri til að hitta kollega okkar frá öllu Norðurlandi.

Starfið okkar dags daglega er ansi fjölbreytt. Við höfum nemendur frá aldrinum 4-72 ára. Nemendahópur okkar hefur alls konar ólíkar þarfir enda erum við öll ólík og okkur finnst afar mikilvægt að í skólanum okkar fái ÖLL tækifæri til að blómstra. Þess vegna leggjum við áherslu á að mæta hverjum og einum þar sem hann er staddur og skapa námsumhverfi sem hvetur til vaxtar.

Við höfum áður sagt ykkur af heimsókn þáttarins Með okkar augum til okkar en ef þið misstuð af því þá er frétt hér á undan um það. Að lokum viljum við vekja athygli á að 9. október kemur Tónlistarmiðstöð í heimsókn í Kvennaskólann á Blönduósi og fræðsluviðburð. Starfsemi miðstöðvarinnar verður kynnt og sá stuðningur sem tónlistarfólk og þau sem starfa í íslenskum tónlistargeira geta sótt til hennar. Að auki verður kynning á endurgreiðslum vegna hljóðritunar á tónlist á Íslandi og nýjum upptökustuðningi.  Aðgangur er ókeypis en skráning fer fram hér.